Patreksfjörður: Lyfja leitar að lyfjafræðingi

Apótek Lyfju á Patreksfirði.

Enginn lyfjafræðingur er starfandi við útibú Lyfju á Patreksfirði og ályktaði sveitarstjórn Tálknafjarðar að þjónusta við íbúa svæðisins hefði versnað til muna og lýsti yfir áhyggjum vegna þessa. “ Undanfarið hefur komið upp að lyf eru ekki til á lager og þarf að panta lyfin með allt að þriggja daga fyrirvara auk þess sem afgreiðsla tekur nú mun lengri tíma en áður var.“ segir í ályktuninni.

Lyfja hefur nú brugðist við ályktun sveitarstjórnar. Segir í bréfi Lyfju að þar til á síðasta ári hafi fyrirtækið haft lyfjafræðing í vinnu í útibúinu á Patreksfirði frá árinu 2013 og það hafi verið rekið sem útibú í flokki A frá Lyfju Ísafirði.

„Við reyndum að ráða lyfjafræðing í hans stað þegar hann sagði starfi sínu lausu, en því miður hefur ekki fengist lyfjafræðingur til starfa á Patreksfirði. Útibúið er nú rekið í flokki B samkvæmt sömu reglugerð. Þá er haldið úti lyfjalager á staðnum en öll afgreiðsla lyfjaávísana er samþykkt af lyfjafræðingum í Lyfju Ísafirði.
Lyfja mun halda áfram leit að lyfjafræðingi til starfa á Patreksfirði og halda úti rekstri lyfjaútibús í flokki B þangað til og tryggja þannig sem best dreifingu lyfja á svæðinu.“

DEILA