Gera ekki kröfu um Æðey og Vigur

Eyjan Vigur og fjallið Hestur. Mynd : Mats Wibe Lund.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins.

Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar en það gerir kröfu í allar eyjar og sker, sem eru 132 talsins á því svæði sem nefnist Vestfirðir utan Barðastrandarsýslna.

Þjóðlendukrafa íslenska ríkisins tekur ekki til eyjanna Æðey og Vigur. Er í þessu sambandi meðal annars litið til þess að um er að ræða eyjur sem voru í byggð í meira en 20 ár frá gildistöku laga nr. 46/1905 um hefð.
Tekið er fram að hér er aðeins átt við meginland ofangreindra eyja. Þjóðlendukrafa ríkisins nær hins vegar til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga ofansjávar á stórstraumsfjöru umhverfis eyjurnar, þrátt fyrir að slíkar landfræðilegar einingar kunni í einhverjum heimildum að teljast tilheyra eyjunni eða vera hluti hennar.

Málsmeðferð á hverju svæði hefst á því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka svæðið til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests. Að liðnum þeim fresti eru heildarkröfur kynntar.

Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu er viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga.

Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur. 

DEILA