Góðar fréttir af norsk-íslenskri síld í Barentshafi

Útlit er fyrir að þrír sterkir árgangar af norsk-íslenska síldarstofninum séu að alast upp í Barentshafi um þessar mundir.

Þetta eru niðurstöður árlegs vistkerfisleiðangurs í Barentshafi sem er samvinnuverkefni Norðmanna og Rússa, og greint er frá m.a. á vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar. Leiðangurinn var farinn á tímabilinu 10. ágúst til 7. október 2023 með þátttöku fjögra rannsóknaskipa.

Niðurstöður síldarmælinganna eru sérstaklega áhugaverðar og kærkomnar því síldarstofninn hefur verið á niðurleið undanfarin ár vegna slakrar nýliðunar. Veiðar umfram ráðgjöf hafa hraðað þeirri þróun.

Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um afla á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2024 var upp á 390 010 tonn og aflamark íslenskra skipa er 61 395 tonn af samkvæmt vef Fiskistofu.

DEILA