Botnsvirkjun í Dýrafirði háð mati á umhverfisáhrifum

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að Botnsvirkjun í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ, skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021.

Þann 21. nóvember 2023 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Botnsorku ehf. um Botnsvirkjun í Dýrafirði.


Skipulagsstofnun leitaði umsagna fjölmargra aðila og hefur nú ákveðið að virkjunin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Að mati Skipulagsstofnunar felast helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar Botnsvirkjunar í áhrifum á vatnafar vegna varanlegra rennslisbreytinga í farvegum Botnsár og Drangár milli inntaka og stöðvarhúss. Þessar rennslisbreytingar geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á smádýralíf á áhrifasvæði virkjunarinnar, sem síðan getur haft neikvæð áhrif á lífríki í Dýrafjarðarbotni og fuglalíf þar sem og á straumendur í ánum.

Mannvirki koma til með að breyta ásýnd landsins og hafa áhrif á óbyggð víðerni þ.e. Glámuhálendið sem hefur nokkurt menningar- og útivistargildi, auk þess sem vatnaflutningarnir og mannvirki munu breyta ásýnd á fossum sem njóta sérstakrar verndar.

Áhrif á gróður vegna stöðvarhúss, inntakslóns, lagningu þrýstipípu og skurða- og vegagerð verða varanleg en framkvæmdin mun m.a. raska votlendi.

Fleiri virkjanir eru innan sama víðernissvæðis s.s. Mjólkárvirkjun og kunni því að vera möguleg sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum á einhverja umhverfisþætti t.a.m. áhrif á víðerni og fuglalíf.

DEILA