Bolungavík: styður hugmyndir Guðmundar Fertrams um samgöngusáttmála Vestfjarða

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi samgöngumál á Vestfjörðum í síðustu viku og ályktaði af því tilefni að það styddi þær hugmyndir sem fram hafa komið um Samgöngusáttmála á Vestfjörðum eins og þeim var lýst í erindi Guðmundar Fertram Sigurjónssonar á Fjórðungsþingi Vestfjarða sem haldið var í Bolungarvík 7.október sl. og hvetur bæjarráðið önnur sveitarfélög á Vestfjörðum að gera slíkt hið sama.

Í erindi Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, forstjóra Kerecis lýsti hann því að samgöngur á Vestfjörðum væru lakari en annars staðar á landinu og það háði Vestfirðingum. Guðundur Ferram sagði að það væri einnig þjóðhagslega hagkvæmt að bæta samgöngur á Vestfjörðum því það skilaði sér í auknum þjóðartekjum vegna aukins fiskeldis og framleiðslu Kerecis sem ætti svo greiðari leið á erlenda markaði vegna bættra samganga.

Vitnaði Guðmundur Fertam til þess að samgönguáætlun til næstu 25 ára væri í undirbúningi og að fjarri væri að Vestfirðingar stæðu jafnfætis að þeim tíma loknum þótt vissulega væru framfarir að finna.

Varpaði Guðmundur Fertram fram þeirri hugmynd að afla fjár hjá fjárfestum til að jafna leikinn með sérstakri samgönguáætlun fyrir Vestfirði og vinna samgöngubætur sem gerðu Vestfirði jafnsetta öðrum landshlutum. Lánin yrðu svo endurgreidd á 25 árum með tekjum af aukinni verðmætasköpun í fjórðungnum.

Óskaði hann eftir samstarfi og stuðningi frá sveitarstjórnarmönnum við þessa hugmynd.

Samþykkt bæjarráðs Bolungavíkur nú rúmum fjórum mánuðum síðar er fyrsta svarið sem berst frá sveitarfélgöunum á Vestfjörðum.

Glæra sem sýnir framkvæmdir við sérstaka Samgönguáætlun á Vestfjörðum.

DEILA