Ísafjörður: vilja byggja nýja slökkvistöð

Slökkvistöð Ísafjarðar. Mynd: Ísafjarðarbær.

Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar lagði fyrir bæjarráðið á mánudaginn minnisblað um þá kosti sem hann telur vera fyrir hendi til þess að bregðast við mynglu í slökkvistöðinni á Ísafirði.

Þar segir að núverandi ástand slökkvistöðvar sé ekki gott og gera þurfi töluverðar úrbætur í nokkrum rýmum t.a.m. í geymslu inn af skrifstofum á 2. hæð þar sem turn stöðvarinnar er staðsettur.
Þar innaf eru miklar rakaskemmdir og þar lekur inn þegar það rignir. Fötur sem eru til að taka við vatni fyllast ef þær eru ekki tæmdar yfir helgi. Víða um mannvirkið eru ummerki um raka og eru skemmdir vel sjáanlegar.

Að mati sviðsstjórans eru bráðaviðgerðir ekki að fara leysa vanda sem hefur verið til staðar mörg undanfarin ár, sem tengjast aðbúnaði starfsmanna stöðvarinnar, t.a.m. salernisaðstaða, sturtuaðstaða, búningsaðstaða og útsogskerfi fyrir bifreiðar.

Leggur hann fram þrjá valkosti:

Valkostur 1: Að Ísafjarðarbær byggi nýja slökkvistöð sem staðsett yrði á Suðurtanga, Ísafirði. Áætlað fermetraverð er 460.000 m/vsk. Húsgerð yrði stálgrindarhús, klætt yleiningum á steyptum undirstöðum.
800 fm. hús myndi kosta 368 m.kr./m.vsk
1000 fm. hús myndi kosta 460 m.kr./m.vsk
Valkostur 2: Að Ísafjarðarbær auglýsi eftir leiguhúsnæði undir slökkvistöð sem uppfyllir allar kröfur til slíks mannvirkis. Leigutími getur verið bundinn til langs tíma og að sveitarfélagið hefði forkaupsrétt á húsinu. Áætlað leiguverð er á bilinu 1450-1550 kr/fm. sem er vísitölubundin. Miðað við 1000 fm. þá yrði kostnaður 1450 – 1550 þ.kr. + vsk. per mánuð. Að þessu sögðu þyrfti að skoða frekar með forkaupsrétt og með að áður greidd leiga gangi upp í kaupverð við kaup.
Valkostur 3: Hefja viðgerðir á núverandi stöð í Fjarðarstræti, nokkur óvissa er með kostnað og viðgerðir á húsnæðinu. Þar sem ástand er víða slæmt eftir áralangt viðhaldsleysi jafnframt hefur mygla gert vart við sig víða. Mannvirkið uppfyllir ekki kröfur HMS sem gerðar eru til slökkvistöðvar í dag. Mögulegur kostnaður við viðgerðir eru 91.600.000 kr.-
Þakvirki og klæðning 84 m.kr.-
Neyðarviðgerðir í starfsmannaðstöðu og í turnrými áætlaður kostnaður um 7,6 m.kr.-
Eins og staðan er með þakvirkið þá þyrfti helst að skipta um hluta af því áður en farið er í neyðarviðgerðir innanhúss. Að öðrum kosti fara hlutirnir í sama horfið á skömmum tíma.

Niðurstaða bæjarráðs var að því hugnast best að flýta framkvæmdum við nýja slökkvistöð og fó það bæjarstjóra að vinna málið áfram og skoða samlegðaráhrif með öðrum stofnunum.

DEILA