Guðbjörg Ásta: fékk 1,5 m.kr. styrk frá Háskóla Íslands til að rannsaka svæðisbundnar takmarkanir á veiðum

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, fékk nýlega 1,5 m.kr. styrk til samfélagsvirkni vegna verkefnis sem snýr að svæðisbundnum takmörkunum á fiskveiðum sem viðbótarleið til að ná tölulegum markmiðum um vernd líffræðilegs fjölbreytileika.

Háskóli Íslands veitir þessa styrki til að styðja við virka þátttöku akademísks starfsfólks í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar. Markmiðið er að veita þeim sem leggja sig fram við að miðla rannsóknum sínum til almennings, eða nýta þær til almannaheilla, tímabundið aukið svigrúm og stuðning.

Svæðisbundnum takmörkunum á veiðum er að jafnaði komið á með fiskveiðilöggjöf en geta engu að síður haft sjónarmið önnur en beina stjórn fiskistofna, s.s. vernd búsvæða, eða endurspeglað aðra hagsmuni eða sanngirnissjónarmið. Þannig er ekki nægjanlegt að kortleggja þessi svæði með tilliti til lífríkis þegar ákvarðanir eru teknar um þýðingu þeirra fyrir verndun líffræðilegs fjölbreytileika heldur þarf líka að kanna sögulega og samfélagslega þætti.

Sjávarútvegur hefur um langt skeið verið ein stærsta atvinnugrein landsins og færa má rök fyrir því að íslenskum hafsvæðum hafi verið stjórnað frá sjónarhóli sjávarútvegs. Svæðisbundnar takmarkanir á veiðum eiga sér því langa sögu, eitt af elstu dæmunum er bann við netaveiði í Faxaflóa árið 1885, og  hefur oftast verið komið á fót í nánu samstarfi iðnaðarins, vísindamanna og stjórnmálamanna. Svæðisbundnar takmarkanir samkvæmt fiskveiðilöggjöfinni, ná nú yfir stóran hluta efnahagslögsögu Íslands en hafsvæði vernduð samkvæmt náttúruverndarlögum (nr. 60/2013) ná yfir innan við 0,1 prósent.

Með hliðsjón af umfangi takmarkana á Íslandsmiðum og öflugri stjórnun þeirra kviknaði áhugi á að skoða þessar aðgerðir útfrá vernd líffræðilegrar fjölbreytileika. Á þessu hafa líffræðingar mismunandi skoðanir en minna hefur verið hugað að skoðunum innan sjávarútvegs á hlutverki svæðisbundinna takmarkanna á veiðum sem tækis til verndar líffræðilegs fjölbreytileika. Fjölmargar rannsóknir hafa þó sýnt að þátttaka sjávarútvegs, sveitarfélaga og annara hagsmunaaðila í hönnun verndarsvæða í sjó er mikilvæg fyrir eftirfylgni og skilvirkni þessara aðgerða. Þar að auki er hætt við að áhersla á ört vaxandi töluleg markmið feli í sér ákvarðanatökuferli sem tekur ekki fullnægjandi á þætti smærri samfélaga og hagsmunaaðila. Þetta getur grafið undan bæði skilvirkni og lögmæti þessara aðgerða. Það er líklegt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi sterkar skoðanir á breyttu hlutverki þessara svæða til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika.

Ekki er um eiginlega vísindarannsókn að ræða, enda gefur upphæð samfélagsstyrkja HÍ almennt ekki tilefni til þess. Styrkurinn er hugsaður til að gefa styrkþega tækifæri til að minnka við sig aðra vinnu innan háskólans og eyða þannig meiri tíma í greiningar og miðlun tengda verkefninu, t.d.  greiningu á forsendum og rökstuðning fyrir einstökum svæðisbundnum aðgerðum og greiningu á viðhorfa hagsmunaaðila innan sjávarútvegs til svæðisbundinna aðgerða sem tækis til náttúruverndar.

DEILA