Vesturbyggð: spáð 30% íbúafjölgun næstu 10 ár

Grunnskólinn á Patreksskóli.

Fram kemur í húsnæðisáætlun Vesturbyggðar fyrir næstu 10 ár sem bæjarstjórn samþykkti í síðustu viku að gert er ráð fyrir í miðspá að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um 351 eða um 29,5% á tímabilinu og verði orðnir 1.540 árið 2033.

Í áætluninni eru birtar þrjár spár um íbúaþróun, háspá, miðspá og lágspá. Í háspánni verða íbúarnir orðnir 1.630 eftir 10 ár en í lágspánni verða þeir 1.464.

Miðað við miðspána er talið að byggja þurfi 229 íbúðir á tímabilinu eða frá 15 – 36 íbúðir á ári. Er það til þess að mæta íbúafjölguninni og því að búist er við að færri búi í hverri íbúð en nú er.

Húsnæðisáætlunin er sundurliðuð eftir byggðarlögum fyrir Patreksfjörð annars vegar og Bíldudal hins vegar. Er gert ráð fyrir sömu íbúafjölgun í þeim báðum um 30% sé miðað við miðspá. Íbúum á ptreksfirði mun fjölga úr 934 í 1.163 á þessum tíu árum 2024 – 2033 og á Bíldudal úr 295 í 377.

Mynd úr húsnæðisáætluninni fyrir Vesturbyggð.

Börnum fjölgar

Börnum mun fjölga samkvæmt húsnæðisáætluninni á tímabili áætluninnar sem er frá 20134 til 2033. Í miðspánni kemur fram að leikskólabörnum muni fjölga úr 58 í 75 börn eða um 29%. Grunnskólabörnum mun fjölga samkvæmt sömu spá úr 125 í 154 eða um 23%.

Háspáin gerir ráð fyrir að leikskólabörnin verði 80 og grunnskólabörnin 172.

Sveitarfélagið er vel í stakk búið til að mæta fjölguninni hvað húsnæði varðar, þar sem nýlega er búið að stækka leikskólann á Patreksfirði og Grunnskólinn var byggður á sínum tíma fyrir mun fleiri börn ern nú eru.

DEILA