Patreksfjörður: fjölmenni á 90 ára afmæli slysavarnardeildarinnar Unnar

Afmælishátíðin var vel sótt.

Afmælishóf slysavarnardeildarinnar Unnar á Patreksfirði, sem haldið var á laugardaginn í Félagsheimili Patreksfjarðar var mjög vel sótt, en vel á annað hundrað manns mættu.

Formaðurinn Sólrún Ólafsdóttir fór yfir 90 ára sögu deildarinnar og rakti hvernig slysavarnarkonurnar hafa beitt sér fyrir margvíslegum öryggismálum allt frá sundkennslu og byggingu sundlaugar á fimmta áratug síðustu aldar til þess í dag að gefa fermingarbörnum reykskynjara, leikskólabörnum endurskinsmerki og nýburum gjafir.

Svanfríður Anna Lárusdóttir frá Landsbjörgu var heiðursgestur og kom fram í ávarpi hennar að slysavarnardeildir á Bíldudal og Patreksfirði hefðu verið meðal þeirra fyrstu sem stofnaðar voru á landinu á árinu 1934. Deildin á Patreksfirði væri orðlögð fyrir öflugt starf.

Sólrún Ólafsdóttir flytur ávarp sitt.

fjórar konur heiðraðar

Af þessu tilefni voru fjórar félagskonur í Unni heiðraðar fyrir störf sín í þágu slysavarnardeildarinnar.

Það voru Guðrún Jónsdóttir, Jenný Óladóttir, Sigríður Guðmundsdóttir og Sonja Ísfeld. Fengu þær sérstaklega útbúið skjal og blómvöld frá félaginu.

Þrjár af konunum sem voru heiðraðar með tveimur stjónarkonum. Jenný Óladóttir átti ekki heimangengt. Önnur frá vinstri en Sonja Ísfeld, þá Sigríður Guðmundsdóttir og Guðrún Jónsdóttir. Lengst til hægri er Sólrún Ólafsdóttir, formaður.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri flutti slysavarnarkonum þakkir frá bæjarstjórn og færði þeim blómvönd. Tónlistarskóli Vesturbyggðar sá um tónlistaratriði og gestum var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð.

Þessar vösku félagskonur sáu um veitingar og tóku á móti gestum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA