
Keppni í Lengjubikarnum í knattspyrnu er hafin og leikur karlalið Vestra í A riðli ásamt fimm öðrum liðum. Mótið kemur sér vel sem undirbúningur fyrir Íslandsmótið sjálft.
Vestri hefur þegar leikið tvo leiki. Fyrst voru Keflvíkingar sóttir heim og lauk leiknum með 2:2 jafntefli. Á laugardaginn átti leikur að vera á Ísafirði við FH en vallaraðstæður voru þannig að ekki var hægt að spila og og var leikurinn færður til Akraness og leikið í Akraneshöllinni.
Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi en Hafnfirðingarnir fóru með nauman sigur af hólmi 0:1.
Um næstu helgi er leikur við Grindvíkinga og verður vegna aðstæðna í Grindavík leikið á Akranesi. Viku seinna verður leikið við Breiðablik í Kópavoginum og síðasti leikurinn verður 9. mars við Gróttu frá Seltjarnarnesi og á leikurinn að vera á Ísafirði.
Samuel Samúelsson, formaður meistarflokksráðs knattspyrnudeildar Vestra sagðist vonast til þess að hægt verði að spila þann leik á Ísafirði. Hlýindi væru framundan og vonandi verður hægt að merkja gervigrasvöllinn og setja upp mörkin.
Samúel sagði að honum litist bara vel á liðið, að teknu tilliti til þess að það væri á eftir öðrum liðum í undirbúningi vegna aðstæðna á Ísafirði. Liðið væri ágætlega mannað en enn ætti þó eftir að fá tvo leikmenn til þess að fylla hópinn.