Skoskur eldislax mesti selda matvara Bretlands til útflutnings á síðasta ári

Fréttin í Fish Farmer.

Eldislax úr sjókvíum í Skotlandi reyndist vera verðmætasta matvara til útflutnings frá Bretlandseyjum á síðasta ári.

Þetta kemur fram á vefmiðlinum fishfarmermagazine.com.

Alls voru fluttar út 64.000 tonn af eldislaxi fyrir 581 milljón sterlingspund, sem er aukning um 5% frá 2022. Það jafngildir um 101 milljarði íslenskra króna reiknað á núverandi gengi. Árið áður voru futt út 72.300 tonn af laxi. Dróst útflutningurinn saman að magni til um 11%.

Mest er selt til Frakklands bæði til neyslu þar og til áframvinnslu á neytendamarkað. Til Bandaríkjanna var selt fyrir 140 milljónir sterlingspunda og jókst salan um 7%. Þá varð mikil aukning á sölu til Kína, en þangað var seldur eldislax fyrir 47,5 milljónir punda og varð aukningin 275 frá fyrra ári.

Lax er langvinsælasti fiskur á Bretlandseyjum og nam salan til neytenda á síðasta ári um 1,25 milljarði sterlingspunda. Það jafngildir um 218 milljörðum íslenskra króna.

Næst á eftir skoska eldislaxinum í útflutningsverðmætum varð Cheddar ostur. Flutt var út fyrir 445 milljón sterlinsgpund.

Haft er eftir Travis Scott, framkvæmdastjóra samtakanna Salmon Scotland að það sé mikil eftirspurn eftir næringarríkri matvöru sem sé framleidd með lágt kolefnisspor bæði á innlendum og erlendum markaði. það sé viðurkenning fyrir eldisfyrirtæki í dreifbýlinu í Skotlandi og starfsfólk þeirra að atvinnugreinin hafi náð þessum árangri , að verða stærsta útflutningsgreinin í matvælaframleiðslunni.

Hann segir að við eldið starfi 12.500 manns m.a. í dreifðum byggðum Skotlands og styrki þær á tímum þar sem er samdráttur í hagkerfi Bretlands.

Eldislax er einnig langtærsta útflutningsvara mælt í verðmætum bæði í Noregi og Færeyjum.

DEILA