Menntaskólinn á Ísafirði í 2. sæti sem stofnun ársins

Menntaskólinn fékk góða einkunn í könnun sem stofnun ársins 2023. Alls tóku um 17.000 manns sem starfa hjá ríki og Reykjavíkurborg þátt í könnuninni sem fram fór í nóvember og desember á síðasta ári.

Í fréttabréfi Sameykis, stéttarfélags í almannaþjónustu segir að niðurstöður könnunarinnar veiti bæði afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og
starfsumhverfi. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini
og aðra hagsmunaaðila segir í fréttabréfinu.

Í flokki meðalstórra stofnana, sem hafa 50 – 89 starfsmenn, voru 45 stofnanir og fengust 1.804 svör. Þar varð Menntaskólinn á Ísafirði í 2. sæti með 4,481 stig í heildareinkunn og staðfesti góða einkunn sína frá árinu áður. Það er Þjóðskrá íslands sem varð efst íþessum flokki.

Varð M.Í. vel fyrir ofan bæði Matvælaráðuneytið og Forsætisráðuneytið svo dæmi séu nefnd.

„Við erum mjög stolt af þessum árangri. Hér er ákaflega góður starfsmannahópur og starfsandinn góður. Það er gott að fá samanburðinn við aðrar ríkisstofnanir og sjá að við stöndum okkur vel í þeim samanburði. Við tókum stórt stökk í fyrra og ánægjulegt að við höldum áfram að bæta okkur. Á sama tíma er þessi góði árangur hvatning til að gera enn betur því mannauðurinn er okkar stærsta auðlind“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

DEILA