Ísafjarðardjúp: styttist í ný leyfi

Háafell er eina fyrirtækið sem fengið hefur leyfi til eldis á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Eldiskvíar Háafells utan Skötufjarðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælastofnun hefur í tæp fimm ár haft til meðferðar og afgreiðslu þrjár umsóknir um leyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Arctic Fish er með umsókn um 8.000 tonn á leyfi fyrir eldi á frjóum laxi sem kæmi í stað leyfis fyrir 5.300 tonna eldi á regnbogasilungi, Arnarlax er með 10.000 tonna umsókn um laxeldi og Hábrún sækir um 11.500 tonna leyfi fyrir regnbogasilungseldi. Allar eru umsóknirnar sendar inn í maí 2019. Það eru Matvælastofnun og Umhverfisstofnun sem gefa út leyfin, sú fyrri rekstrarleyfi og sú síðari starfsleyfi.

Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish segist telja að málið sé á lokastigi í Matvælastofnun og gerir sér vonir um að rekstrarleyfið verði gefið út innan skamms. Fyrirtækið hafi leyst úr öllum atriðum sem að því snýr og svör Matvælastofnunar séu á þann veg að ætla megi að málinu sé að ljúka með útgáfu leyfis. Umhverfisstofnun hefur þegar fyrir liðlega hálfu ári auglýst starfsleyfið.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir að unnið sé að leyfunum bæði hjá Matvælastofnun og hjá Umhverfisstofnun og hann vonast til þess að leyfin verði auglýst fljótlega.

Davíð Kjartansson hjá Hábrún ehf segir að umsóknin og matsáætlun sé hjá Matvælastofnun og beðið sé svara.

DEILA