Vesturbyggð: vill menntasetur á sunnanverðum Vestfjörðum

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttur, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að á sunnanverðum Vestfjörðum sé þegar starfandi framhaldsdeild frá FSN (Fjölbreytaskóla Snæfellsness). Sveitarfélögin [Vesturbyggð og Tálknafjörður] hafi óskað eftir samtali við mennta- og barnamálaráðuneytið um það hvernig auka megi aðgengi að fjölbreyttara námi á svæðinu og er ein hugmyndin að framhaldsdeildin verði útvíkkuð í menntasetur þar sem fleiri framhalds- og menntaskólum yrði boðið að vera hluti af einingunni. Ef það yrði að veruleika þyrfti að skipuleggja námið þannig að hluti væri í staðnámi og hluti í fjarnámi og staðnám færi þá fram á þeim tímabilum sem samgöngur eru einfaldari.

nota ekki verknámshúsið

„Varðandi þróun fjölda nemenda frá suðurfjörðunum við Menntaskólann á Ísafirði þá er það bara mjög ánægjulegt, enda viljum við að sem flest þeirra sem útskrifast úr grunnskólum Vesturbyggðar haldi áfram í námi.“ segir Þórdís. En hún segir að flestir þeirra sem eru í verknámi eða 12 af 16 séu á sjúkraliðabraut sem nýti ekki verknámshúsið.

„Í gögnum sem við höfum fengið frá MÍ eru 19 nemendur með póstnúmer í Vesturbyggð og Tálknfjarðarhrepp. Þar af 16 í verknámi. Af þessum 16 eru 12 á sjúkraliðabraut í dreifnámi, en samkvæmt upplýsingum frá MÍ er námið þannig sett upp að nemendur fara í verklegar staðlotur, eina á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði, eina í Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði og eina önn til Reykjavíkur. Taldi bara mikilvægt að það kæmi fram, þar sem að það hljómar eins og það séu 16 nemendur frá sunnanverðum Vestfjörðum sem myndu nýta sér verknámshúsið, en það er ekki ætlað fyrir sjúkraliðabrautina, samkvæmt mínum upplýsingum a.m.k.“

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði segir að frá Vesturbyggð og Tálknafirði séu núna 16 í verknámi, af þeim eru 8 í sjúkraliðanámi.  „Þeir nemendur koma hingað í lotu og sumir í verknám á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og hafa þá getað fengið gistingu á heimavistinni.

Hinir verknámsnemendurnir eru í grunnnámi rafiðngreina, húsasmíði, matartækni og vélstjórn A. Helmingurinn af þeim eru í dagskóla, aðrir í dreifnámi og koma hingað í lotur og fá þá gistingu á heimavistinni.“

DEILA