HVEST: ekki hægt að fá pantaðan tíma hjá lækni

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Í síðustu viku, nánar til tekið þann 6. febrúar, fengust þau svör hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði að ekki væri hægt að fá bókaðan tíma hjá lækni, þar sem allir tímar væru upppantaðir og var viðkomandi bent á að hringja eftir 16. febrúar og athuga þá möguleika að fá tíma.

Athugað var þá að fá tíma hjá sérfræðingi á höfuðborgarsvæðinu, en til þess þarf tilvísun frá heimilislækni. Spurt var fyrir um möguleika á tíma hjá lækni á Ísafirði til þess að gefa tilvísun. Eftir athugun var í boði að fá tíma 19. febrúar.

Bæjarins besta hafði samband við Hildi Pétursdóttur, settan forstjóra stofnunarinnar og innti eftir skýringum á þessum svörum.

Hildur segir svona tímatakmarkanir á bókunum í læknatíma vera þekkt um allt land, og vera allt frá einni viku upp í fjórar vikur.

„Þetta er gert til að minnka tímasóun í kerfinu sem og vegna skipulags í læknamönnun. Við höfum verið að þróa þetta áfram hjá okkur hvernig skipulag er best að hafa á þessu þannig að að allir tímar nýtist sem best.“

DEILA