Unglingar í Vesturbyggð fjalla um jafnrétti á Valda í Skjalda

Á þriðjudaginn var mikil gleði í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði en þar fór fram stuttmyndahátíðin Valda í Skjalda. Hátíðin er í anda Skjaldborgar, hátíðar íslenskra heimildamynda, sem fram fer í hinum gamalgróna og fallega kvikmyndasal ár hvert um hvítasunnuhelgina. Að baki Valda í Skjalda stendur unglingastig grunnskólanna í Vesturbyggð. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin og er þema hennar jafnrétti.

Nafnið Valda í Skjalda kemur frá krökkunum og vísar Skjalda í Skjaldborg en Valda vísar í valdatafl sem er heiti á lotu í skólunum. Í lotunni er skoðað hvaða hópar verða undir í samfélaginu, hvaða hópum þau tilheyra, hverjir hafa valdið utan þeirra sem hafa það skipað t.d. í krafti embætta og hvað hægt er að gera til að gera öllum jafn hátt undir höfði. Fyrir valdatafl fara fram lotur sem taka á mannréttindum og lýðræði, svo þau hafa öðlast enn frekari innsýn í hvað kann að vera fólgið í valdi.

Unglingarnir fá frjálsar hendur varðandi útfærslu á myndunum, þær mega vera leiknar, teiknaðar eða jafnvel stop-motion hreyfimyndir. Þeir sjá jafnframt um handritagerð, myndatöku, leikmynd, klippivinnu og svo auglýsingagerð.

Sem áður segja er þema hátíðarinnar jafnrétti og hafa krakkarnir þá skoðað fyrir hverju það stendur í augum hvers og eins. Jafnframt hafa þeir skoðað hvað gera má til að standa upp fyrir minnihlutahópum eða þeim sem auðvelt er að fordæma og kúga. Þetta mátti vel sjá í þeim sjö myndum sem sýndar voru á Valda í Skjalda, en þær tóku meðal annars á fordómum gagnvart hinsegin fólki, mismunun kynjanna á vinnustöðum, valdaójafnvægi í samböndum og þriðju vaktinni.

Valda í Skjalda hefur vakið verðskuldaða athygli og verður verkefnið meðal annars kynnt á menntaráðstefnu í Hofi í apríl.

Myndir: aðsendar.

DEILA