Vinna við samein­ingu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar í fullum gangi

Birkimelur á Barðaströnd.

Undan­farna vikur og mánuði hefur ýmiss vinna verið í gangi sem miða að því að sameining Vest­ur­byggðar og Tálkna­fjarð­ar­hrepps muni ganga sem best.

Kosið var um samein­ingu 28. október sl. þar sem afger­andi meiri­hluti íbúa kaus með samein­ing­unni.

Undirbúningsstjórn um sameininguna er skipuð þremur fulltrúum Vesturbyggðar og þremur fulltrúum Tálknafjarðarhrepps. 

Helstu verkefni undirbúningsstjórnar eru m.a.

  • Vinna nýja samþykkt um stjórn og fundarsköp
  • Ákveða kjördag og gildistöku sameiningar
  • Hefja vinnu við val á nýju nafn, bæjarmerki
  • Fá staðfestingu ráðuneytis svo sameiningin geti átt sér stað

Kosið verður til sameiginlegrar sveitarstjórnar 4. maí næstkomandi og mun sameiningin taka gildi 15 dögum síðar eða 19. maí. Ný sveitarstjórn mun hafa tvær vikur frá sameiningardegi til að koma saman til fyrsta fundar.

Kosið verður í heimastjórnir sama dag og kosið verður til sveitarstjórnar og eru tveir fulltrúar kosnir á hverjum stað en það verða fjórar heimastjórnir. Á Patreksfirði, Bíldudal, Tálknafirði og Barðaströnd og gamla Rauðasandshreppi.

Á fundi undirbúningsstjórnar sem haldinn var 7. febrúar sl. var ákveðið að hefja ferli við val á nafn á sameinað sveitarfélag. Byrjað verður á því að kalla eftir tillögum frá íbúum um nafn á sameinað sveitarfélag og í framhaldi af því verða tillögur sendar til örnefnanefndar til umsagnar.

Á þriðja fundi undirbúningsstjórnar var samþykkt að nýtt sveitarfélag muni bera núverandi kennitölu Vesturbyggðar.

Þessa dagana er vinna að hefjast við ýmis praktísk mál eins og fjárhagskerfi sveitarfélaganna, launakerfi, skjalakerfi ofl.

Vinna er hafin við yfirferð á heimasíðum sveitarfélaganna en byggt verður á heimasíðu Vesturbyggðar, gera má ráð fyrir einhverjum breytingum á síðunni.

Verið er að fara yfir samninga sem í gildi eru og samræma og segja upp því sem segja þarf upp tímanlega til að komast hjá óþarfa kostnaði.

DEILA