Patreksfjörður: Ný viðbygging við leik­skólann Araklett

Bergdís Þrastardóttir leikskólastjóri tekur við styrk frá Lionsklúbbnum á Patreksfirði.

Í síðustu viku á Degi leik­skólans, var ný viðbygging við leikskólann Araklett á Patreksfirði form­lega opnuð og er nú pláss fyrir 60 börn á leik­skól­anum. 

Viðbyggingin markar tímamót hvað varðar starfsemi leikskólans þar sem samhliða því að viðbyggingin var tekin í notkun voru gerðar miklar breytingar á starfsemi leikskólans. Allt skipulag starfseminnar var endurskoðað, breytingar hafa orðið á deildarskipan, aukið hefur á fjölbreytileika rýmanna, gert er ráð fyrir sérkennslurými, starfsmannaaðstaða hefur verið bætt og fleira sem gerir það að verkum að rýmin á Arakletti uppfylla nú gæðaviðmið um húsakost leikskóla. Á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Vesturbyggðar þetta árið er einnig gert ráð fyrir að halda áfram viðhaldi á eldra húsnæði og nauðsynlegum endurbótum á lóðinni eftir framkvæmdirnar. 

Rausnarlegar gjafir frá Lions, Odda hf og einstaklingum í nærsamfélaginu bárust, sem Bergdís Þrastardóttir, leikskólastjóri þakkar fyrir og segir hún að ekki muni líða á löngu áður en leikskólinn mun einnig uppfylla gæðaviðmið um námskost.

Vegleg gjöf frá Odda hf sem Skjöldur Pálmason afhenti.

Myndir: Vesturbyggð.

DEILA