Þingeyri: viðgerðarkostnaður á sundlaug hækkar í 33 m.kr.

Sundlaugin á Þingeyri.

Kostnaður við viðgerð á sundlaugardúk í íþróttamiðstöðinni á Þingeyri er talinn verð 12,5 – 13 mkr. eftir því sem fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar. Í nóvember síðastliðinn kom í ljós að dúkurinn væri ónýtur. Við frekari athugun kom í ljós að lagnir undir sundlaugarkerinu leka. Orsakir lekans má rekja til þess að baulur við samsetningar, lagna og
innstreymisstúta eru ýmist að brotna, eða við það að detta í sundur vegna ryðgaðra bolta.

Starfsmenn Á Óskarsson hefja vinnu við viðgerðir í þessari viku og heildarkostnaður við verkið er talinn geta endað í 12,5-13 m.kr.

Í viðhaldsáætlun ársins var lagt upp með að endurnýja glugga í íþróttamiðstöðinni og var gert ráð fyrir 22
m.kr.- í íþróttamiðstöð Þingeyrar á árinu 2024 þar af 20 m.kr. í glugga. Viðgerðin á sundlaugardúknum bætist við og hækkar þá kostnaðurinn í um 33 m.kr.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar taldi heppilegast í þessari stöðu að áfangaskipta gluggaskiptum sundlaugarinnar til að koma til móts við þennan kostnaðarauka, þannig að hluti viðhalds glugga verði árið 2024 og að gert verði ráð fyrir fjármunum í fjárhagsáætlun 2025 vegna síðari hluta gluggaskipta.

DEILA