OV: næst að rannsaka Vatnsdalsvirkjun og bera saman við aðra virkjunarkosti í rammaáætlun

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Í fréttatilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða kemur fram að samandregin niðurstaða umsagna um Vatnsdalsvirkjun sé að sú virkjun komi til með að raska náttúrufars- og menningarþáttum sem hafa hátt verndargildi samkvæmt lögum og skilmálum friðlýsingar, en að áhrifin eru staðbundin og varða í einhverjum tilfellum þætti sem eru útbreiddir á svæðinu. Í ljósi þeirrar niðurstöðu, og með hliðsjón af brýnum almannahagsmunum sem felast í að mæta orkuþörf Vestfjarða er það mat Orkubús Vestfjarða að það sé mikilvægt næsta skref að rannsaka ítarlega forsendur Vatnsdalsvirkjunar og bera saman við aðra virkjunarkosti í rammaáætlun.

Alls gáfu tólf umsagnaraðilar umsögn um erindið og greinargerðina. Megin viðfangsefni í umsögnum snúa að birkiskógum, óbyggðum víðernum, vatnamálum, samfélagsþáttum og valkostum auk óvissu um umhverfisáhrif. Þá kalla umsagnaraðilar eftir ítarlegri rökstuðningi um brýna samfélagslega nauðsyn þess að skoða virkjun innan friðlandsins í Vatnsfirði.

Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða:


Nú liggja fyrir umsagnir frá fjölbreyttum hópi umsagnaraðila. Ég hef sent orku- og loftslagsráðherra minnisblað sem unnið var af VSÓ ráðgjöf og Orkubúi Vestfjarða þar sem innihald umsagna er dregið saman eftir mismunandi flokkum. Orkubúið hefur í kjölfar umsagnar Vesturbyggðar bætt við samanburði Vatnsdalsvirkjunar við Tröllárvirkjun, sem er hluti af Rammaáætlun 4. Báðar virkjanir eru á ábyrgð Orkubúsins. Tröllárvirkjun er að mati Orkubús Vestfjarða ekki hagkvæm og óvissa er um aðra nýtingu á vatnasviði virkjunarinnar. Samkvæmt forathugun telur Orkubú Vestfjarða möguleika á að umhverfisáhrif Vatnsdalsvirkjunar séu minni. Uppistöðulón Vatnsdalsvirkjunar yrðu á þegar röskuðu svæði, en flutningslína Landsnets, Mjólkárlína liggur um svæðið.  Fallpípa virkjunarinnar yrði niðurgrafin og boruð 220m niður í stöðvarhúshvelfingu, en 500m aðkomugöng og önnur 500m frárennslisgöng myndu liggja úr Vatnsdal inn í hvelfinguna. Með því yrðu sjónræn áhrif í Vatnsdal lágmörkuð eftir að framkvæmdum lýkur.  

Á Vestfjörðum er til staðar viðvarandi slæmt ástand í orkumálum. Á þessu ári og síðustu árum einnig hefur Orkubúið þurft að framleiða mikið magn orku með jarðefnaeldsneyti og það er óásættanleg staða fyrir okkar landshluta. Orkubúið telur það samfélagslega ábyrgt að bera Vatnadalsvirkjun saman við aðra kosti sem eru í rammaáætlun til þess að taka upplýsta ákvörðun sem hentar hagsmunum Vestfjarða sem best. Þá er mikilvægt að hafa í huga að ákvörðun um að bera saman áform um Vatnsdalsvirkjun við aðra virkjunarkosti felur ekki í sér ákvörðun um virkjun“.

Orkubúið telur að í umsögnum aðila um greinargerðina hafi komið nytsamar ábendingar um rannsóknir sem þarf að ráðast í og gögn sem þarf að afla til að fá heildstæðari mynd af áhrifum virkjunar í Vatnsfirði. Þessar ábendingar muni nýtast í áframhaldandi vinnu verði tekin ákvörðun um að skoða Vatnsdalsvirkjun sem valkost þegar horft er til raforkumála á Vestfjörðum.

Mynd af svæðinu í skýrslu VSÓ.

DEILA