Fjölmenni á þorrablótum um helgina

Árni Brynjólfsson á Vöðlum lék og söng nefndavísurnar.

Vestfirðingar sóttu vel þorrablót um helgina. Á laugardaginn voru þrjú blót sem Bæjarins besta er kunnugt um. Á Flateyri var Stútungur haldinn í íþróttahúsinu og var blótið að venju mjög vel sótt. Á þriðja hundrað manns skemmtu sér saman. Eru það mun fleiri gestir en nemur íbúum á eyrinni. Sjá mátti marga brottflutta Flateyringa svo sem Eirík Finn Greipsson, fyrrverandi Sparisjóðsstjóra, Brynhildi Einarsdóttur frá Sólbakka og Bryndísi Sigurðardóttur, sem árabil átti og rak Bæjarins besta. Þá voru á blótinu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra og Ásthildur Sturludóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Vesturbyggð og núverandi bæjarstjóri á Akureyri svo fáein séu nefnd.

Í Hnífsdal voru um 170 manns á sameiginlegu blóti Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga og fór vel á með blótsgestum. Þar komu líka margir brottfluttir til að skemmta sér með heimamönnum, meðal annarra var Þorsteinn Jóhannesson læknir og fyrrverandi frammámaður í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Þriðja blótið var í Bolungavík hjá félagi eldri borgara í bænum. Um 40 – 50 manns voru þar og áttu góða stund saman.

Á þessum þremur þorrablótum lætur nærri að á fimmta hundrað manns hafi skemmt sér saman á laugardaginn.

Bryndís Sigurðardóttir.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA