Ísafjörður: Vel sóttur fundur ráðherra Sjálfstæðisflokksins

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra.

Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hélt opinn fund á Ísafirði á laugardaginn ásamt Teiti Birni Einarssyni alþm frá Flateyri. Yfirskrift fundarins var að tækifæri og áskoranir til að efla atvinnulíf framtíðar ásamt því að ræða erindi Sjálfstæðisflokksins og taka við fyrirspurnum frá fundargestum.

Áslaug Arna lagði áherslu á þá stefnu að styrkja fjórar stoðir atvinnulífsins og bæta þannig lífskjör almennings og draga úr sveiflum í efnahagsbúskapnum. Hún sagði innflytjendur leggja sitt af mörkum og drífa áfram hagvöxtinn. Fiskeldi væri mikilvæg atvinnugrein en vanda þyrfti til verka.

Ráðherrann vék að vaxandi hraða í breytingum og þekkingu. Áður hefði tvöföldun tekið langan tíma en nú væri hraðinn slíkur að tvöföldun tæki stuttan tíma. Áslaug sagðist hafa ákveðið eftir að hún tók við ráðherraembætti að auglýsa öll störf án staðsetningar sem gerði fólki kleift að starfa fyrir ráðuneytið þótt það væri búsett utan höfuðborgarsvæðisins.

Þá sagði Áslaug Arna frá glímu sinni við embættismannavaldið sem ætti það til að fara sínu fram þótt ráðherra vildi annað.

Margar fyrirspurnir voru lagðar fyrir ráðherrann og Teit Björn. Var þar m.a. komið inn á orkumál og virkjunarkosti á Vestfjörðum, jarðgöng frá Ísafirði til Súðavíkur og aðgengi að háskólamenntun í Reykjavík. Í svörum ráðherra kom fram að löggjöf sem heimilaði kærur á mörgum mismunandi tigum torveldaði framganga virkjanakosta og væri þörf á að breyta því.

Áslaug Arna verður í Bolungavík í dag og verður með opna skrifstofu þar í Ráðhúsinu frá kl 15.

Frá fundinum á laugardaginn.

Það var létt yfir fundargestum og þessir létu fara vel um sig í sófanum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA