Byggðakvóti: 38% til Vestfjarða

Til Flateyrar er ráðstafað 285 tonnum af byggðakvóta.

Alls eru 4.829 tonn til úthlutunar í byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Honum er skipt niður á sjö landssvæðiog kemur mest í hlut Vestfjarða 1.832 tonn eða 38% af byggðakvótanum.

Nætmestur byggðakvóti fer til Norðurlands eystra en þangað fara 1.308 tonn. Langt er í næsta svæði en það er Austurland með 613 tonn. Þá kemur Norðurland vestra sem fær 460 tonn, Vesturland 215 tonn, Suðurland 211 tonn og loks Suðurnes með 189 tonn.

Þetta kemur fram í svari Matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta.

Átta af níu sveitarfélögum á Vestfjörðum fá úthlutað byggðakvóta, aðeins Reykhólahreppur er undanskilinn. Kvótanum er úthlutað til byggðalaga innan sveitarfélagsins og í tveimur þeirra, Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð eru fleiri en eitt byggðarlag sem fær úthlutun.

Vestfirðir 1.832 tonn mælt í þorskígildum
Bolungarvíkurkaupstaður 65
Bolungarvík 65
Ísafjarðarbær 1.084
Flateyri 285
Hnífsdalur 137
Ísafjörður 195
Suðureyri 192
Þingeyri 275
Kaldrananeshreppur 76
Drangsnes 76
Strandabyggð 130
Hólmavík 130
Súðavíkurhreppur 60
Súðavík 60
Sveitarfélagið Árneshreppur 30
Norðurfjörður 30
Tálknafjörður 285
Tálknafjörður 285
Vesturbyggð 102
Bíldudalur 40
Brjánslækur 15
Patreksfjörður 47

Sveitarstjórnirnar eru að ganga frá úthlutunarreglum sem geta verið að nokkru leyti mismunandi eftir sveitarfélögum.

DEILA