Verknámshús M.Í. : Súðavík og Ísafjarðarbær verða með

Menntaskólinn á Ísafirði.

Súðavíkurhreppur og Ísafjarðarbær hafa ákveðið að taka þátt í byggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Kaldrananeshreppur verður ekki aðili að samningi sveitarfélaganna á Vestfjörðum við ríkið.

Önnur sveitarfélög hafa ekki afgreitt erindi Vestfjarðastofu, sem annast milligöngu í málinu.

Bæjaráð Ísafjarðarbæjar bókaði 15. janúar sl. að það fagnaði því að umræða um nýtt verkmenntahús væri komin á skrið og fól bæjarstjóra að vera í sambandi við Vestfjarðastofu og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna málsins. Á mánudaginn var málið aftur á dagskrá og voru lagðar fram upplýsingar frá mennta- og barnamálaráðuneyti um lauslega kostnaðardreifingu sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Bæjarráðið bókaði samhljóða að vonast væri til samstöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum um byggingu nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði enda um ríkt hagsmunamál svæðisins að ræða.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær verði með í byggingunni.

Málið var rætt i bæjarráði í Bolungavík í síðustu viku og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagðist eiga von á því að ákvörðun yrði tekin í næstu viku.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð sagðist gera ráð fyrir að beiðni Vestfjarðastofu verði tekin fyrir á næsta fundi bæjarráðs sem er í næstu viku. Erindið var lagt fram á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps í síðustu viku, en ekkert bókað um afstöðu til þess.

Árneshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur hafa ekki enn tekið málið fyrir.

Fyrir liggja drög að samningi milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um byggingu 850 fermetra verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%.

Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 476,8 – 715,3 milljónir króna
samkvæmt forathugun Framkvæmdasýslu ríkisins miðað við verðlag í október 2023.

Hlutur sveitarfélaganna verður samkvæmt þessu á bilinu 191 – 286 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélagið þar sem skólinn er leggi til gjaldfrjálsa lóð.

Uppfært kl 10:17: Gylfi Ólafsson,formaður bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær verði með í byggingunni og hefur fréttinni og fyrirsögn hennar verið breytt til samræmis við það.

DEILA