Ísafjörður: dregið verði úr notkun atvinnuhúsnæðis á Seljalandshlíð

Í skýrslu Veðurstofu Íslands frá október 2023 um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi er fjallað m.a.um svæðið frá Seljalandi í Skutulsfirði út að Gleiðarhjalla. Um það segir að fjórir megin snjóflóðafarvegir séu á svæðinu. Karlsárgil, Grænagarðsgil, Hrafnagil og Steiniðjugil. „Fjöldi snjóflóða hefur fallið úr giljunum og mörg þeirra valdið tjóni. Allt svæðið er á hættusvæði C og liggur C-línan langt út í sjó. Snjóflóðahætta er ráðandi á svæðinu.“

Neðan og utan við Grænagarð er atvinnusvæði. Þar eru þrjú hús, netaverkstæði, skrifstofuhúsnæði og sorpflokkunarstöð þar sem áður var steypustöð (Steiniðjan). Svæðið er allt á sama rýmingarreit og er hann meðal þeirra reita sem oftast eru rýmdir á Íslandi og mörg snjóflóð hafa fallið á eða að Steiniðjunni.

Til að vera það atvinnusvæði var skoðað að reisa tvo 450 m langa leiðigarða af gerð I. Vestari yrði 8–15 m hár en sá eystri 8–12 m. Kostnaður við þá er metinn 1–2 milljarðar , sem er umfram brunabótamat eignanna sem nemur 600 m.kr. segir í skýrslunni.

Varðandi Steiniðjuni var athugað að gera jarðvegsgarð upp við skemmuna í þyrpingunni og verja hana. „Garðurinn gæti varið húsið gegn hönnunarflóði en myndi ekki stöðva það. Athafnasvæðið við húsið væri því ekki varið. Kostnaður við slíkan garð er gróft metið 50—100 m.kr.“

Lokaorðin um þetta svæði eru: „Allt svæðið er á hættusvæði þar sem C-línan nær langt út í sjó. Rýmingar eru tíðar og snjóflóð úr farvegunum ofan við húsin eru einnig tíð. Erfitt og dýrt er að koma við vörnum fyrir húsin öll. En mögulegt er að verja Steiniðjuna með punktvörn en ekki atvinnusvæðið við húsið. Það
besta í stöðunni er að reyna að draga úr notkun annara húsa og svæðisins þegar til lengri tíma er litið.“

DEILA