Patrekshöfn: ekki raunhæft að verja höfnina að fullu fyrir ofanflóðum

Fram kemur í skýrslu Veðurstofu Íslands frá nóvember 2023 um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi að stór hluti hafnarinnar, athafnasvæði og hluti atvinnuhúsnæðis er á hættusvæði C. Varnir sem reistar hafa verið fyrir íbúabyggðina, draga ekki úr hættu í og við höfnina nema að litlu leyti. Ekki eru raunhæfar leiðir til þess að verja hana að fullu segir í skýrslunni.

mælt með því að færa höfnna

Þá segir eftirfarandi: „Höfnin er ekki vel staðsett þannig að sveitarfélagið og siglingasvið Vegagerðarinnar ættu að kanna möguleika á því að byggja upp höfn á öðrum stað þegar til langs tíma er litið. Snjóflóðin 1906/1907 og 1921 og tíð snjóflóð á þessu svæði á síðustu árum sýna að mikil vá er fyrir dyrum ef stórt snjóflóð fellur úr farveginum ofan hafnarinnar.“

Skýrsluhöfundar segir að það sé sveitarfélagsins að skipuleggja hafnarsvæðið og þá taka ákvörðun um hvort að líta ætti til nýrrar staðsetningar hafnarinnar eða verja höfnina með keilum verði farið í að verja atvinnusvæði.

lagt til að reisa keilur

Skoðað voru nokkrar varnir fyrir hafnarsvæðið.

Þvergarður á milli varnargarðanna fyrir íbúðarbyggðina kemur ekki til greina, þar sem hann myndi draga úr virkni þeirra varna. Þá er flóðhraði mikill og garðurinn þyrfti að vera mjög hár.

Stoðvirki: Ofan hafnarinnar er snjódýpt talin of mikil fyrir upptakastoðvirki eins og nefnt var að framan og aðstæður til þess að reisa og viðhalda stoðvirkjum eru mjög erfiðar.

Snjósöfnunargrindur: Ekki er komin nógu mikil reynsla á snjósöfnunargrindurnar sem reistar voru á Brellum 2017 til þess að ákvörðun um uppsetningu og útfærslu á grindunum hafi verið tekin. Þær kunna að draga úr snjósöfnun í upptakasvæði neðan brúnarinnar og meðal annars ofan hafnarinnar. Grindurnar myndu því mögulega auka öryggi á hafnarsvæðinu en ekki hafa áhrif á hættumatslínur.

Keilur: Skoðað hefur verið að koma fyrir 6 x 9 m háum keilum rétt ofan hafnar en neðan varnargarðanna. Staðsetning var valin þannig að þær hefðu hvorki neikvæð áhrif á virkni leiðigarðanna, né beindu flóðum að íbúðarhúsum. Tilgangur keilna er að draga úr hraða snjóflóða út í höfn og þar með draga úr afleiðingum flóða á hafnarsvæði og fækka flóðum sem ná út í úthlaupslengd hönnunarflóðs en þau myndu samt sem áður ná út í höfnina. Keilurnar gætu stöðvað minni flóð sem næðu annars að eða rétt út í höfnina. Ef slíkar keilur yrðu reistar myndi C-lína færast ofar í höfnina en hluti hafnarinnar yrði áfram á C-svæði. Hér hefur verið reiknað með að keilurnar verði með þrjár brattar hliðar til að auka virkni þeirra. Tvær keiluraðir hafa meiri áhrif en ein keiluröð. Í kostnaðarmati er gert ráð fyrir að þessar keilur verði reistar. Keilurnar munu ekki draga úr hættu í skemmu, við Þórsgötu 14 og yrði hún áfram á C-svæði.

Vesturbyggð hefur sent inn umsögn í samráðgátt stjórvalda um áform um að breyta lögum og heimila Ofanflóðasjóði að verja atvinnumannvirki og kemur þar inn á stöðu hafnarinnar. Segir sveitarfélagið mikilvægt að farið verði í gerð varna sem lágmarka myndu áhættu innan hafnarinnar. Segir að „ef flóð félli í smábátahöfnina þá myndi það hafa umtalsverð áhrif innan allrar hafnarinnar og líkast til myndi fylgja flóðbylgja út höfnina. Þegar illa viðrar eða náttúruhamfarir ganga yfir hafa hafnir oft verið eina leiðin út úr bæjum og þorpum, eins og gerðist bæði í krapaflóðinu á Patreksfirði 1983 og snjóflóðinu á Flateyri 2020. Það er því mjög mikilvægt að hægt sé að treysta á hafnirnar fyrir neyðaraðstoð og flutning af svæðinu.“

Kostnaðarmat við varnirnar sem lagað eru til i skýrslunni er 300 m.kr.

DEILA