Í 30 ár hefur Þorsteinn Jóhannesson, yfirlæknir og skurðlæknir á Ísafirði,
Þjónað Vestfirðingum nær nótt og dag. Ef einhver einstaklingur á Ísafirði
verðskuldar virðingu og þakklæti, umfram annað samferðafólk okkar, þá er
það Þorsteinn Jóhannesson.
Þann 16. maí s.l. sendi forstjóri HVEST frá sér fréttatilkynningu þar sem segir,
að „samkvæmt samkomulagi milli forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og
Þorsteins Jóhannessonar skurðlæknis og yfirlæknis sjúkrasviðs HVEST, mun
Þorsteinn láta af störfum við heilbrigðisstofnunina 15. júlí n.k. eftir tæplega
30 ára starf. Svo mörg voru þau orð.
Ekki kemur fram hvort „samkomulag“ þetta hafi verið gert að frumkvæði
Þorsteins eða HVEST. Ekki hefur heyrst að Þorsteinn, sem er nýlega orðinn 66
ára , hyggðist láta af störfum fyrr en efni stæðu til. Ekkert segir um það hvort
HVEST hafi nú þegar tryggt Vestfirðingum skurðlækni til að fylla skarð Þorsteins.
Skurðlæknar liggja nú ekki beint á lausu í landinu, en vitað er að Þorsteinn vann
þrekvirki við að tryggja afleysingalækna, þegar hann þurfti á fríum að halda.
Það er margt sem sækir á hugann þegar lesin er tilkynningin um brotthvarf
Þorsteins, sem fram kemur á heimasíðu HVEST 16. maí s.l.
Er hugsanlegt að forstjóri HVEST sé að boða nýja stefnu í heilbrigðismálum
Vestfjarða ( landsbyggðarinnar ) sem geri m.a. ráð fyrir því að ekki skuli vera
skurðlæknir á HVEST ?. Hefur heilbrigðisráðuneytið markað slíka stefnu og hafa
núverandi stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hugsanlega fallist á slíka
breytingu ? Vita þingmenn Norðvesturkjördæmis eða sveitarstjórnir af þessum
hugmyndum, ef réttar eru ? Þetta mál, brotthvarf Þorsteins Jóhannessonar og
raunverulegar ástæður þess, og þrýstingur heilbrigðisyfirvalda í landinu á að
fækka skurðlæknum á landsbyggðinni, þarfnast frekari skýringa.
„Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ segir máltækið.
Auðvitað hefur Þorsteinn Jóhannesson fullan rétt á að taka sér hvíld eftir langan,
strangan og farsælan vinnudag, en hitt er verra ef ekki hefur ríkt skilningur á
mikilvægi hans sem skurðlæknis, þegar fyrrnefnt „samkomulag“ var gert.
Var reynt að fá Þorstein, fullfrískan mann á besta aldri, til að halda áfram sem
skurðlæknir eða var stefnan að hafa ekki lengur skurðlækni á staðnum ?
Þorsteinn hefur alla tíð staðið fastur fyrir, þegar reynt hefur verið af
stjórnvöldum, að veikja heibrigðiskerfið á Vestfjörðum. Nú reynir á hvort breyting
verður og forsvarsfólk HVEST taki baráttulaust við öllum fyrirmælum og
sendingum að sunnan.
Magnús Reynir Guðmundsson
fyrrv. form. stjórnar Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði: