Vestfjarðastofa: 80% af fiskeldisgjaldi renni til sveitarfélaga

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Vestfjarðastofa segir í umsögn sinni um frumvarp matvælaráðherra um lagareldi að Fjórðungssamband Vestfirðinga hafi ályktað að meginhluti fjármagns Fiskeldissjóðs renni til verkefna sveitarfélaga eða allt að 80%. Í dag er það þriðjungur fiskeldisgjaldsins. Hins vegar tekur Vestfjarðastofa undir þá breytingu á Fiskeldissjóði að gera hann að Samfélagssjóði sjókvíaeldis og úthlutun sjóðsins breytt úr umsóknarfyrirkomulagi yfir fyrirkomulag með fastri skiptingu á sjókvíaeldissvæði og þaðan innan sveitarfélaga.

Vestfjarðastofa gerir athugasemd við áform um að friðlýsa svæða gagnvart sjókvíaeldi auk
annarra takmarkandi ákvæða með lögum. Með því muni eldismagn við Ísland vera fest við rétt um 145 þús tonn m.v. núverandi burðarþolsmat og óljóst hvernig atvinnugreinin geti þróast innan þess ramma.

Það er mat Vestfjarðastofu að með því verði um að ræða gjörbreytta mynd af framþróun atvinnugreinarinnar sem að óbreyttu verði í andstöðu við aðalmarkmiði laganna, um að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu.

áhyggjur af áhrifum frumvarpsins

Stjórnvöld verða á hverjum tíma að gæta að samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar gagnvart öðrum þjóðum og skapa rými til að þróa eldisaðferðir sem henta aðstæðum við Ísland. Sá rammi sem frumvarpsdrögin setja telur Vestfjarðastofa dragi mjög úr fjárhagslegri og sérfræðilegri getu fyrirtækja að þróa sjókvíeldi og útilokað að ná því markmiði að innan fimm ára að vera í forystu varðandi stöðu lífríkis og velferð dýra.

Vestfjarðastofa hefur áhyggjur af því, að gangi frumvarpið fram í óbreyttri mynd, muni að það skapi mikla óvissu og alvarlega stöðu og framtíð samfélaga sem byggja á lagareldi. Drögin skorti heildarsýn á áhrif breytinga lagaramma og hugsanleg mögnunaráhrif og árekstra mismunandi aðgerða. Í annan stað hafi ekki verið skoðað meðalhóf um setningu aðgerða og ætluðum árangri þeirra.

DEILA