Dynjandisheiði: sótt um framkvæmdaleyfi fyrir 3. áfanga

Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir 3. áfanga  uppbyggingar Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði frá Þverá við Rjúpnabeygju að Búðavík í Arnarfirði. Vegarkaflinn er um 7 km langur og allur í Ísafjarðarbæ.

Alls er áætlað að það þurfi 640 þúsund rúmmetra af efni sem sótt verður í skeringar og nálægar námur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á þessu ári og taki 2 ár. Í umsókninni er tilgreint hvernig ganga eigi frá vegsvæði og uppgræðslu á efnistökusvæðum og skeringum í samráði við landeigendur og Umhverfisstofnun. Kemur fram að kjarr verði endurheimt á svæðum sem eru utan 1,5 metra fjarlægðar frá axlarkanti.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar mælir með því að bæjarstjórn veiti framkvæmdaleyfi en með því skilyrði að kjarr verði ekki endurheimt svo nálægt vegöxl, eins og kemur fram í umsókninni, þar sem það gæti haft áhrif á snjósöfnun á veginum.

Málið verður tekið til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í dag.

DEILA