Handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns kynnir nýja sýningu um æfi Hólmfríðar Sigurðardóttur prófastsfrúar í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Í Hólmfríði speglast valdaættir og menning aldarinnar á einstakan hátt eins og greina af þeim heimildum sem varðveittar eru um hana og hennar fólk.
Í aðalhlutverki á sýningunni er handritið Lbs 1528 8vo. Það inniheldur líkræðu, lífshistoríu og erfiljóð um Hólmfríði og dóttir hennar, Ragnheiður Jónsdóttir biskupsfrú, lét gera. Handritið er eiginhandarrit höfunda þess og er stórmerkileg heimild um konu úr efstu lögum samfélagsins á 17. öld. Efni þess er einnig varðveitt í tveimur yngri uppskriftum.
Hólmfríður var eiginkona Jóns Arasonar prófasts í Vatnsfirði en Jón var sonur Ara sýslumanns Magnússonar í Ögri sem þekktastur var fyrir sinn þátt í Spánverjavígunum. Dóttir þeirra, Ragnheiður, varð eiginkona tveggja biskupa á Hólum. Hún var þriðja kona (1674) Gísla Þorlákssonar og seinni kona Einars Þorsteinssonar (1696) en hann varð bráðkvaddur eftir aðeins eins mánaðar hjónaband. Ragnheiður þótti einn besti kvenkostur á Íslandi á sinni tíð og var mikilvirk hannyrðakona. Myndir af Ragnheiði prýða íslenska 5000 króna seðilinn.
Sýningin er opin á opnunartíma Þjóðarbókhlöðu, kl. 9:00-17:00 alla virka daga. Opnunartíminn lengist í lok ágúst.