Tálknafjörður: vill tryggja vetrarþjónustu um Klettháls

Vetrarveður á Kletthálsi.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ræddi á fundi sínum í síðustu viku um vetrarþjónustu af því tilefni að fyrirhugað er útboð á vetrarþjónustu á leiðinni Dynjandisheiði – Klettháls.

Lýsti sveitarstjórnin yfir áhyggjum sínum af mögulega lakari vetrarþjónustu vegna fyrirséðra breytinga í fyrirhuguðu útboði Vegagerðarinnar þar sem ætlun Vegagerðarinnar sé að nota sömu tæki á leiðinni frá Dynjanda að Klettshálsi til að opna leiðina og halda henni opinni þann tíma sem vegurinn er þjónustaður. Segir sveitarstjórnin að brýnt sé að hafa í huga hversu erfiður fjallvegur Dynjandisheiðin getur verið á snjóþungum vetri og því „óttast sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps að slíkt ástand geti komið niður á vetrarþjónustu á leiðinni Flókalundur-Klettsháls ef gengur erfiðlega að opna Dynjandisheiðina. Það má ekki gerast að fyrirkomulag þjónustu valdi því að leiðin að Klettshálsi opni síðar en er í núverandi fyrirkomulagi.“

Bent er á að mikið af þungaflutningum til og frá svæðinu fari um Klettsháls auk umferðar almennra íbúa og því sé algjört lykilatriði að tryggja að vetrarþjónusta á leiðinni að Klettshálsi sé ávallt eins og best verður á kosið.

„Því leggur sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps mikla áherslu á að Vegagerðin tryggi að vetrarþjónustu verði ávallt sinnt sem best má verða og að vandað sé til verka við undirbúning útboðs ef breyta á leiðum í vetrarþjónustu.“

DEILA