Dómsmálaráðherra: lögreglustjórar almennt ekki vanhæfir til að fara með mál stærri fyrirtækja

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.

Dómsmálaráðherra segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að óhætt virðist „að árétta að ekki hefur verið byggt á því sjónarmiði í íslenskri réttarframkvæmd að embættismenn eða dómarar séu almennt vanhæfir til að fara með mál stærri fyrirtækja í sínum umdæmum.

Ráðherrann var inntur eftir því hvort hann teldi að málatilbúnaður Gunnar Arnar Petersen, framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga ætti rétt á sér, en Gunnar hefur haldið því fram að lögreglustjórinn á Vestfjörðum væri vanhæfur til þess að rannsaka mál á hendur Arctic Fish og vísar til þess að erlendis „að samfélög sem lenda undir hælnum á svona stórum fyrirtækjum verða ð nokkru leyti lömuð þar sem embættismenn og íbúar samfélaganna þora ekki að stíga upp á móti fyrirtækjunum og stjórn þeirra. Í þessu tilfelli hafa stjórnendur líka mjög mikið pólitískt afl á bakvið sig og slíkt getur náttúrulega valdið vanhæfi.“ (Stöð 2 , 30. desember 2023).

Gunnar Örn svarar ekki

Gunnar Örn Petersen hefur enn ekki svarað fyrirspurn Bæjarsins besta þar sem hann var beðinn um rökstuðning fyrir ummælum sínum.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra segir að almennt hafi verið talið að það fari ekki vel á því að dómsmálaráðherrar hafi bein afskipti af rannsókn eða meðferð einstakra sakamála sem eru til vinnslu hverju sinni eða tjái sig opinberlega um þau.

Vill ráðherrann ekki tjá sig um hæfi lögreglustjórans og vísar til þess að um vanhæfi til meðferðar sakamála er fjallað í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 og „dómsmálaráðherra hefur út af fyrir sig ekki sérstakar skoðanir á vanhæfismálum á þessu sviði, umfram og út fyrir það sem fram kemur í lagatextanum sjálfum.  Það er lögreglustjóra að meta hvort hann hafi slík tengsl við aðila að hann sé vanhæfur til meðferðar þess og samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna, getur hann borið álitaefni að þessu leyti undir ríkissaksóknara, en ekki dómsmálaráðherra.“

DEILA