Umdeilt bann við laxeldi

Húsavík.

Sveitarfélagið Norðurþing gerir athugasemdir við tillögu Matvælaráðherra í drögum að frumvarpi um lagareldi um bann við laxeldi í sjó í Eyjafirði og Öxarfirði. Segir í bréfi Norðurþings að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin við vinnslu frumvarpsins né haf það verið sent sveitarfélögunum til umsagnar. „Friðun hafsvæða og lögfesting þess er mjög stór ákvörðun og eðlilegt að byggðarlögin sem verða fyrir mestu áhrifum frumvarpsins og íbúar þess komi að umræðunni um friðun.“ segir í bréfinu.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur að umræða um friðun ákveðinna svæða eigi ekki heima innan lagasetningar sem snýr annars að almennri umgjörð greinarinnar. Umræða um friðun svæða eigi frekar að fara fram í sér tillögum að svæðisbundnum lögum eftir því sem við á hverju sinni og byggja til að mynda á burðaþolsmati sem leitt geti til upplýstrar umræðu á hverjum stað fyrir sig. 

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggur áherslu á að ekki sé mögulegt að taka upplýsta og vel rökstudda ákvörðun um það hvort rétt sé að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi í sjókvíum fyrir komandi kynslóðir fyrr en allar nauðsynlegar upplýsingar til slíkrar ákvarðanatöku liggja fyrir, svo sem burðarþolsmat, og málefnaleg umræða hafi í kjölfarið átt sér stað.

Mikilvægt sé því að lögfesting friðunarsvæða verði því ekki hluti af lögunum og að viðkomandi samfélög fái tíma og upplýsingar til að taka málefnalegar umræður um sín nærsvæði og að lögfesting friðunarsvæða fari því frekar fram í sérfrumvarpi til laga.

Sveitarstjórn er meðvituð um þá möguleika til atvinnu og verðmætasköpunar sem felast í fiskeldi og að mismunandi aðferðir við eldi geti haft mismikil áhrif á umhverfið segir í umsögninni. Bendir sveitarstjórn því á að í stað íþyngjandi ákvarðana um friðun ákveðinna svæða sé heillavænlegra að leggja áherslu á það í lagasetningunni að skapa greininni viðunandi umgjörð, líkt og frumvarp þetta til laga leggur grunn að, þar sem skýrt sé til hvers sé ætlað af aðilum í greininni, eftirlit sé raunverulegt og fullnægjandi og brot á reglum sé mætt með viðeigandi viðurlögum.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fagnar löggildingu friðunar Skjálfandaflóa fyrir sjókvíaeldi og leggur áherslu á að vernda lax og silungsveiði.

DEILA