Aparólumálið: nefndin setur sig ekki á móti sáttaleið

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók fyrir aparólumálið á fundi sínum í síðustu viku. Þar var kynnt erindi frá Berglindi Árnadóttur sem leggur til að rólan verði flutt í Holtahverfi og sett þar upp.

Starfsmanni nefndarinnar var falið að uppfæra minnisblað um mat á framkvæmdaleyfi í samræmi við umræður á fundi. Hvað fólst í þeim umræðum var ekki upplýst.

Bærinn hyggst setja upp aparóluna við leikvöll á Eyrartúni. Íbúi á Túngötu 12, Sigríður Gísladóttir kærði málið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og telur framkvæmdina ekki vera í samræmi við skipulagsáætlanir Ísafjarðarbæjar. Nefndin vísaði kærunni frá þar sem ekki væri um að ræða kæranlega stjórnvaldsákvörðun.

Formaður skipulags- og mannvirkjanefndar Sigríður Júlía Bryleifsdóttir var innt eftir því hvort nefndin væri hlynnt hugmyndinni um flutninga á aparólunni.

Í svari hennar segir að nefndin setji sig ekki upp á móti því að fundin verði leið til að sætta sjónarmið.

DEILA