Menntaskólinn á Ísafirði fær 4,9 m.kr. styrk

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Menntaskólinn á Ísafirði hefur fengið 4.909.420 kr. styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til þerfaglegs skólaverkefnis með samstarfsaðilum um orkuframleiðslu. Nefnist verkefnið : Nýting mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði.

Styrkirnir eru til nýsköpunar- og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs. Um nýja tímabundna styrki er að ræða til að innleiða aðgerð 2 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um aukna skólaþróun um allt land.

Markmið styrkjanna er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum sem kennarar, skólastjórnendur og annað fagfólk og nemendur hafa frumkvæði að og deila í kjölfarið með öðrum. Horft er til heildarnálgunar á menntun og víðtækrar samvinnu innan skóla og milli skóla og annarra stofnana, auk samvinnu heimila og skóla.

Styrkjunum er ætlað að styðja við nýja nálgun og vera hreyfiafl framfara í skóla- og frístundastarfi við innleiðingu menntastefnu, jafna tækifæri nemenda um land allt og hvetja skóla til nýsköpunar á sviði skólaþróunar.

Alls bárust 73 umsóknir og hljóta 40 þeirra styrk að upphæð 99.816.802 kr.

„Menntastefna stjórnvalda til ársins 2030 leggur ríka áherslu á aukna skólaþróun og er það ein af fyrstu níu aðgerðum við innleiðingu hennar. Við ætlum að skapa nýja þekkingu og sjá til þess að þeirri þekkingu verði deilt vítt og breitt innan skólasamfélagsins og frístundastarfs til frekari lærdóms og ávinnings með aukinni fjárveitingu. Við viljum valdefla fagfólk okkar og hvetja til lærdómshugsunar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

DEILA