Aparólan: lagt til að hún verði í Holtahverfi

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Berghildur Árnadóttir hefur ritað bréf til Ísafjarðarbæjar og óskað eftir því að aparólan sem setja á upp á Eyrartúni verði sett inn í Holtahverfi á bak við varnargarðinn, nánar tiltekið á svæði þar sem gengið er upp úr Stórholtinu í átt að Vegagerð. Þar verði aparólan mikið notuð og muni ekki raska ró íbúa, enda sjái varnargarðurinn til þess.

Berghildur segir að gallinn við að hafa slíkt tæki í íbúðarhverfi sé sá að „hægt er að leika sér í því allan
sólarhringinn á meðan t.d. í ærslabelgjum fer loftið úr þeim kl.21:00 á kvöldin, þá 4-6 mánuði árs sem hægt er að nota þá.
Má alveg gera ráð fyrir að krakkar og ungmenni noti aparóluna langt fram á kvöld, sem mun því miður raska svefnfrið íbúa sem búa upp við leiktækið. Einnig er það viðbúið að leiktækið laði til sín fólk að næturlagi sem er að koma heim af skrallinu. Þetta fyrirkomulag er dæmt til að valda verulegu ónæði að kvöldi og næturlagi fyrir íbúa.“

Erindi Berghildar var tekið fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd í vikunni ásamt minnisblaði skipulagsfulltrúa, dags. 10. janúar 2024, vegna mats á því hvort framkvæmdin er framkvæmdaleyfisskyld.

Minnisblaðið hefur ekki verið birt og ekkert upplýst um innihald þess.

Nefndin bókaði að loknum umræðum að starfsmanni væri falið að uppfæra minnisblaðið um mat á framkvæmdaleyfi í samræmi við umræður á fundi. Hverjar þær umræður voru hefur ekki verið upplýst. Hverjar undirtektir nefndarinnar við erindi Berghildar voru er heldur ekki upplýst.

DEILA