Ísafjarðarbær: fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hækkar um 67% á þremur árum

Frá Ísafirði.

Tekjur Ísafjarðarbæjar af fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði er samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 talinn skila 330 m.kr. í tekjur. Skatturinn var árið 2021 197 m.kr. og hefur hækkað um 67% á þessum þremur árum. Álagningarprósentur er nánast þær sömu á þessum tíma, þó hefur álagning á íbúðarhúsnæði lækkað úr 0,56% í 0,54% af fasteignamati. Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði er 1,65% öll árin og 1,32% af öðru húsnæði.

Heildartekjur af fasteignaskatti hækka úr 375 m.kr. árið 2021 í 565 m.kr. í ár eða um 190 m.kr.

Meginskýringin á hækkuðum tekjum af fasteignaskattinum er hækkun fasteignamatsins. Frá árinu 2020 til 2024 hefur fasteignamat í Ísafjarðarbæ hækkað um samtals 81% og frá árinu 2021 til 2024 er hækkunin 63%.

Fasteignaskatturinn af öllum fasteignum hækkar um 11% frá fyrra ári. Tekjurnar eru áætlaðar verða 565 m.kr. á þessu ári en voru 515 m.kr. á því síðasta. Hækkunin er heldur meiri á íbúðarhúnæði en öðru húsnæði eða nærri 12%.

úr greinargerð með fjárhagsáætlun.

DEILA