Fjölnir var á leið frá Vestmannaeyjum hlaðinn fiski. Var þetta fyrsta ferð hans út á árinu, þar sem hann var nýkominn úr langri viðgerð. Ferðin hafði gengið að óskum og skipið farið að nálgast land þegar slysið vildi til, um kl. 11 að kvöldi þess 9. apríl 1945.
Breskt skip, Larids Growe(?) frá Glasgow, um 2000 tonna flutningaskip, sigldi á Fjölni framanverðan, í myrkri. Fjölnir lagðist þegar á hliðina og sökk á þrem mínútum, eftir því, sem skipverjum á Larids Growe taldist til.
Skipverjarnir á Fjölni sáu engin ljós á Larids Growe, en Fjölnir var með fullum ljósum. Skipstjóri, ásamt tveimur hásetum, var í brúnni er áreksturinn varð. Gat skipstjóri stokkið út á síðuna og komið sér í sjóinn. Annar þeirra, sem var í brúnni með skipstjóra, komst af, en hinn týndist.
Skipstjóri telur, að allir skipverjar, að einum undanskildum, hafi komist frá skipinu. Björgunarflekanum skaut upp þegar skipið var sokkið og komust fjórir skipverjanna, er voru syndir, upp á hann af eigin rammleik. Stýrimanninum, Steinþóri Benjamínssyni var bjargað upp á flekann, en hann var ósyndur. Svo var dimmt að varla sá út úr augunum, en á flekanum var ljós, svo auðvelt var að finna hann.
Breska skipið mun hafa staðnæmst eftir áreksturinn varð, því að þegar skipbrotsmennirnir fimm komu upp á flekann, sást það rétt hjá þeim, og eftir nokkra stund kom bátur frá því og tók þá um borð. Flutti skipið þá síðan til Londonderry á Íslandi. Þar fengu þeir hina bestu aðhlynningu á sjómannaheimili, m.a. ný föt, yst sem innst.
Af tíu manna áhöfn, fórust fimm.
Af vefsíðunni legstadaleit.com