Mast: ekki ákveðið hvort ákvörðun lögreglustjóra verði áfrýjað

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar segir að verið sé að skoða hvort stofnunin uni ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum sem ákvað að hætta rannsókn á slysasleppingu laxa úr kví Arctic Fish í Patreksfirði og fella þar með málið niður. Unnt er að áfrýja eða kæra þá ákvörðun til Ríkissaksóknara.

Hrönn segir að að krafa um úrbætur sé í raun eina verkfærið sem stofnunin hafi sjálf í sínum höndum, áfrýjun sé til skoðunar en engin ákvörðun hafi verið tekin.

Bent var á það í frétt á Bæjarins besta í gær að ekki væri í gildandi reglugerð um fiskeldi ákvæði um ljósastýringu og neðansjávareftirlit.

Landssamband veiðifélaga og íslenski náttúruverndarsjóðurinn, icelandic wildlife fund hafa tilkynnt að samtökin muni kæra ákvörðun lögreglustjóra en ekki liggur fyrir hvort þau séu aðili máls og hafi þar með kærurétt.

Matvælastofnun hefur birt skýrslu sína um slysasleppinguna í ágúst sl. Þar kemur fram að fóðrari hafi verið færður að brún kvíarinnar en ekki fjarlægður og hafi nuddast tvö göt á kvína á um tveggja metra dýpi 20×30 cm stór og að ekki hafi verið viðhaft neðansjávareftirlit við kvína frá 16. maí til og með 20. ágúst eða í 95 daga. Þá hafi kynþroski reynst vera 35% og segir í skýrslu Mast:

„Leiða má líkum að því að ljósastýring sem á að viðhafa samkvæmt skilyrðum í rekstrarleyfi hafi misfarist hjá Arctic Sea Farm á eldissvæðinu við Kvígindisdal.“

Skortur á ljósastýringu er talið alvarlegt frávik á skilyrði í rekstrarleyfi fyrirtækisins og skortur á neðansjávareftirliti sömuleiðis alvarlegt frávik á gæðastjórnun og innra eftirliti.

Slátrun upp úr kvínni lauk 8. ágúst og Arctic Fish hefur tilkynnt um breytingar á innra eftirliti.

DEILA