Hvalárvirkjun: vonast til þess að framkvæmdir geti hafist 2026

Ásbjörn Blöndal.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku segir aðspurður um framvindu virkjunaráforma Hvalárvirkjunar að næstu tvö ár muni einkennast af skipulagsmálum og umhverfismatsmálum fyrir tengingu Landsnets. Auk þess sé vinna hafin í samræmi við alþjóðlegan sjálfbærnistaðal sem metur Hvalárverkefnið á viðtækari hátt en gert er í hefðbundnu umhverfismati. Ásbjörn segir að væntingar standi til þess að leyfi fyrir framkvæmdir geti legið fyrir á árinu 2026 og í kjölfarið fari um þrjú og hálft ár í framkvæmdir við virkjun og tengilögn Landsnets.

Miðað við þessi svör gæti virkjunin tekið til starfa árið 2030.

VesturVerk hélt í fyrra áfram rannsóknum á vatnasviðum sem virkjunarkostir fyrirtækisins koma til með að nýta. Samhliða rannsóknum hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að minnka óvissu vegna eignarhaldsmála og þjóðlendukrafna ríkisins á svæðinu.

Náttúrufræðistofnun Íslands sendi tillögur til þáverandi umhverfisráðherra fyrir um tveimur árum um friðum fossa í ám sem virkja á vegna Hvalárvirkjunar. Ásbjörn segir að ákvörðun Alþingis um að Hvalárvirkjun verði áfram í nýtingarflokki hafi ýtt þeim tillögum út af borðinu. Eftir standi að ríkið hefur gert kröfur um þjóðlendu á hluta virkjunarsvæðisins og búist er við því að Óbyggðanefnd úrskurði í vor um kröfuna og þar með eignarhaldið á vatnsréttindunum.

Samstarf milli VesturVerks og Landsnets er þegar hafið þar sem framkvæmdir beggja þurfa að fara fram samhliða og mikilvægt að samræma allan undirbúning. Landsnet hefur ákveðið að tengivirki verði reist í Miðdal á Steingrímsfjarðarheiði og framundan er gerð umhverfismats fyrir það og línulagnir frá Hvalárvirkjun. Þá eru einnig hafnar viðræður við Vegagerðina sem er veghaldari í Árneshreppi og mikilvægt að upplýsa um virkjunaráformin og undirbúa þau verkefni sem nauðsynleg eru til að þungaflutningar geti farið fram um aðalveg hreppsins.

DEILA