Vestfjarðastofa: orkuskortur hamlar uppbyggingu

Í áramótapistli Sigríðar Ólafar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu, sem birtist á Bæjarins besta á gamlársdag segir hún að mikill uppgangur sé á Vestfjörðum og fjárfestingar umtalsverðar, bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila. Hins vegar þurfi bæði meiri orkuframleiðslu á Vestfjörðum og jafnvel að tvöfalda Vesturlínu. Hið opinbera hafi „þrátt fyrir hillumetra af skýrslum hefur hið opinbera engin raunveruleg svör.“ Sigríður segir að taka þurfi ákvarðanir um næstu skref strax til að svæðið geti tekið þátt í orkuskiptunum framundan og haldið áfram uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.

íbúðaskortur

Annað sem þrengir að uppbyggingunni á Vestfjörðum er að mati Sigríðar skortur á íbúðahúsnæði sem standi „þróun samfélags og atvinnulífs fyrir þrifum á svæðinu.“ Þrátt fyrir mikinn skort er verð á íbúðahúsnæði enn víða vel undir byggingarkostnaði sem skýri hversu lítið hafi verið byggt síðustu áratugina. Bendir Sigríður á að fjölgun hafi orðið í þeim byggðakjörnum og sveitarfélögum sem hefur náðst að byggja nýtt íbúðahúsnæði.

vegur um Teigskóg og brýr

Á síðasta ári hafi orðið gleðileg uppbygging í samgöngumannvirkjum og nefnir Sigríður sérstaklega nýja brú yfir Þorskafjörð, sem vígð var með viðhöfn og nokkru síðar opnaði vegurinn marg umræddi um Teigskóg í Þorskfirði.Auk þess séu framkvæmdir í gangi við 12 km langan nýjan veg á Dynjandisheiði og um helmingur hans hafi þegar verið tekinn í notkun.

DEILA