MÍ: Ísafjarðarbær greiddi framlag vegna Fablab fyrir 2023

Frá undirritun samningsins um Fablab 2018. Mynd: Aðsend.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fimmtudaginn 3,9 m.kr. viðauka við fjárhagsáætlun ársins fyrir notkun Fab Lab smiðju árið 2023.

Í bréfi skólameistara Menntaskólans á Ísafirði dags. 14. júní í sumar var farið fram á að Ísafjarðarbær greiddi framlag sitt fyrir 2022 en sveitarfélagið hafði allt það ár nýtt Fablab smiðjuna til kennslu fyrir grunnskóla sveitarfélagsins. Var Ísafjarðarbær ekki rukkaður fyrir efnis- og tækniþjónustu, en hún nam 4.932.000 kr.

Skólameistarinn rekur að í apríl 2022 hafi verið fundur sveitarfélaganna við Djúp um samstarf þeirra um Fablab Ísafjörður og rætt um áframhaldandi samstarf. Það hafi því komið á óvart að Ísafjarðarbær hafi tilkynnt að hlutur þeirra fyrir 2022 yrði ekki greiddur þar sem samningurinn væri útrunninn. Bolungavík og Súðavík greiddu sinn hlut.

Skólameistari segir að taki Ísafjarðarbær ekki þátt í rekstri Fablab smiðjunnar sé rekstrargrundvöllurinn brostinn í því formi sem hann er í dag.

Fór hann fram á að Ísafjarðarbær kæmi að því með MÍ og hinum sveitarfélögunum tveimur að endurnýja samninginn til næstu fjögurra ára.

Í afgreiðslu bæjarstjórnar koma ekki fram svör við því erindi.

DEILA