Arnarstofninn er í vexti og nú eru talin vera fleiri arnarpör á Íslandi heldur en nokkurn tíma í tíð núlifandi manna eftir því sem kemur fram í viðtali í Morgunblaðinu við Kristin Hauk Skarphéðinsson, sviðsstjóra dýrafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í ár er talið að um 76 hafarnarpör séu á landinu, en þau hafi verið 74 í fyrra. Varpið í ár er ríflega í meðallagi miðað við síðustu ár en vitað er um 27 hreiður sem eru með 33 ungum. Kristinn Haukur segir að oft hafi varpið gengið verr á nyrstu útbreiðslusvæðum hafarna, sem eru útsettari fyrir vond veður og þannig var það einnig í ár.
„Á Vestfjörðum og við Húnaflóann er það ekki nema eitt par af ellefu sem er að koma upp ungum, eða tæplega 10%. Á móti kemur að við sunnanverðan Breiðafjörð gekk varpið mjög vel og þar er það helmingurinn af pörunum sem er að koma upp ungum, sem telst vera mjög gott á arnarvísu,“ segir hann.