Útsvar hækkar í 14,97%

Samkomulagið undirritað í Ráðherrabústaðnum í síðustu viku.

Sveitarfélög landsins afgreiða nú fyrir áramót hækkun útsvars úr hámarki 14,74% í 14,97% eða um 0,23%. Skattar hækka ekki á útsvarsgreiðendur þar sem ríkið lækkar tekjuskatt um sömu tölu 0,23%. Um er í raun að ræða tilfærslu á skatttekjum frá ríki til sveitarfélaga. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024. Þessu breyting kemur í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 en þá fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaga. Heildarhækkun tekna sveitarfélaga er því tæplega 12 milljarðar króna og er tilkomin vegna þjónustu þeirra við fatlaða.

Í tilkynningu um breytinguna á vef stjórnarráðsins segir að frá því að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk átti sér stað frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hafi orðið mikil framþróun í málefnum fatlaðs fólks, ásamt því að gerðar hafa verið lagabreytingar um aukna þjónustu. Ríkið hefur komið til móts við sveitarfélögin með aukinni fjármögnun en sveitarfélögin hafa engu að síður staðið frammi fyrir útgjaldaaukningu í málaflokknum. Núverandi samkomulagi er ætlað að koma til móts við það.

Hækkun útsvarsins mun renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verða hluti af framlögum sjóðsins sem veitt eru til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.

Útsvarshækkunin er á dagskrá bæjarstjónar Ísafjarðarbæjar á morgun.

DEILA