Byggðastofnun: meðaltekjur 2022 á Vestfjörðum 8 m.kr.

Meðalárstekjur á hvern tekjuþega á Vestfjörðum á síðasta ári voru liðlega 8 m.kr. eða nákvæmlega 8.099.000 kr. Langstærstur hlutinn eru atvinnutekjur eða um 73%, síðan lífeyristekjur 10%, fjármagstekjur voru 8% og aðstoð sveitarfélaga 8%.

Langhæstar voru tekjurnar á höfuðborgarsvæðinu 8,8 m.kr. á hvern tekjuþega. Lægstar voru tekjurnar á Norðurlandi vestra, aðeins 7,4 m.kr. Reyndar var það langt á milli höfuðborgarsvæðisins og annarra landssvæða að öll önnur svæði voru með lægri meðaltekjur en landsmeðaltali sem var 8,5 m.kr.

Þessar upplýsingar má finna á mælaborði Byggðastofnunar. Þar eru einnig upplýsingar um tekjur eftir sveitarfélögum. Á Vestfjörðum er Tálknafjörður með hæstu meðaltekjurnar 8.514 þús kr. Næst kemur Bolungavík með 8.345 þús kr. Ísafjarðarbær er í þriðja sæti með 8.213 þús kr. Vesturbyggð næst með 8.188 þús kr. Í fimmtasæti er Kaldrananeshreppur með 7.938 þús kr. meðaltekjur, þá Strandabyggð 7.511 þús kr., Súðavík 7.199 þús kr., Árneshreppur 6.733 þús kr. og lægstar voru meðaltekjurnar í fyrra í Reykhólahreppi 6.705 þús kr.

Á landinu öllu voru langhæstu meðaltekjurnar í Grindavík 14,9 m.kr. Það skýrist einkum af mjög háum fjármagnstekjum sem voru 7,2 m.kr. að meðaltali á hvern tekjuþega. Í næstu sætum voru Seltjarnarnes, garðabær og Snæfellsbær með um 11 m.kr.

DEILA