Ísafjörður: mikil eftirspurn eftir nýjum íbúðum á Eyrinni

Vestfirskir verktakar ehf og Skeið ehf hafa kynnt fyrir bæjaryfirvöldum áform um byggingu á 9 íbúðum í þriggja hæða húsi á lóðinni Sindragötu 4a. Stærð íbúðanna verður frá 90 – 100 fermetrar og tvö svefnherbergi í hverri. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við bygginguna snemma næsta vor og er áætlaður byggingatími 15 mánuðir.

Í byggingarlýsingu segir:

Gengið er inn í húsið í anddyri og þaðan inn á stigagang þar sem einnig er lyfta. Á hverri hæð verða þrjár íbúðir, aðgengilegar frá miðlægum stigagangi eða lyftu. Sameiginlegar svalir verða yfir anddyri, klæddar óbrennanlegu efni. Í kjallara verða geymslur fyrir hverja íbúð, tæknirými/inntaksklefi ásamt sorpgeymslu, aðgengileg utanfrá. Tæknirými hefur einnig sérinngang að utan. Í kjallara verða 5 bílastæði, þar af eitt með hjólastólaaðgengi. Loftræstikerfi er í öllu húsinu.

Óska eftir fleiri lóðum fyrir fjölbýlishús

„Skemmst er frá því að segja að við höfum fundið fyrir miklum áhuga vegna verkefnisins og ljóst er að eftirspurnin er mikil og íbúðirnar verða auðseljanlegar. Í ljósi þessarar miklu eftirspurnar er það eindregin ósk okkar að bæjaryfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hægt verði að afhenda fleiri fjölbýlishúsalóðir sem fyrst till þess að hægt verði að byggja fleiri fjölbýlishús á eyrinni á Ísafirði.“

DEILA