Tálknafjörður: sveitarfélagið greiddi 740 þús kr. í húsaleigu vegna sveitarstjóra

Tálknafjörður.

Tálknafjarðarhreppur greiddi á síðasta ári um 740 þúsund krónur til Fasteignafélagsins 101 Tálknafjörður ehf vegna Túngötu 42, íbúðar sem leigð er núverandi sveitarstjóra Ólafi Þór Ólafssyni. Jón Ingi Jónsson, stjórnarformaður fasteignafélagsins segist hafa fengið þetta staðfest hjá endurskoðendum sveitarfélagsins, KPMG.

Samkvæmt húsaleigusamningi er húsaleigan 68.804 kr. á mánuði verðbætt miðað við byggingarvísitölu sem er 84.260 kr./mánuði miðað við nýjustu vísitölu. Í samþykktum fasteiganfélagsins segir að leigufjárhæð skuli ákvörðuð þannig að hún standi undir afborgun lána og greiðslu kostnaðar við viðhald og rekstur viðkomandi húsnæðis og öðrum rekstrarkostnaði félagsins.

Leigufjárhæðin hrekkur ekki til og því hefur sveitarfélagið greitt ofangreinda fjárhæð. Í rekstraryfirliti fasteignafélagsins sundurliðað eftir íbúðum kemur fram að leigutekjur af Túngötu 42 á síðasta ári voru 1.679.434 kr. Tekjur af leigusamningi vegna íbúðarinnar hafa verið um 940 þúsund kr.

DEILA