Tálknafjörður: 21% halli af rekstri sveitarfélagsins á þessu ári

Tálknafjörður. Ein heimastjórnin er fyrir Tálknafjörð.

Samkvæmt útkomuspá fyrir Tálknafjarðarhrepp verður hallinn á þessu ári rúmar 97 m.kr. Tekjur eru áætlaðar verða 454 m.kr. Hallinn er því 21% af tekjum. Í fyrra varð hallinn 99 m.kr. og tekjurnar urðu þá 458 m.kr. sem gerir nærri 22% hallarekstur.

Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var afgreidd á fundi sveitarstjórnar á þriðjudaginn. Tekjurnar eru áætlaðar 542 m.kr. og áframhaldandi halli en hann verður 48 m.kr. eða um 9% af tekjum.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru taldar verða 687 m.kr. um næstu áramót og þær hækki á næsta ári og verði 764 m.kr. í lok ársins.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri segir í greinargerð, sem fylgir með fjárhagsáætluninni, að lykiltölur í rekstri Tálknafjarðarhrepps síðustu ár hafi verið með þeim hætti að ekki hefði verið komist hjá því að ráðast í erfiðar aðhaldsaðgerðir og enn frekari hækkun gjaldskráa en nú er gert. „Greiningar í aðdraganda sameiningarkosninga sýndu að nýtt sveitarfélag hefur alla burði til að verða með heilbrigðan rekstur og trausta fjárhagsstöðu og því óþarft að ráðast í sársaukafullar sparnaðaraðgerðir í þessari síðustu fjárhagsáætlun í sögu Tálknafjarðarhrepps.“

framkvæmdir 60 m.kr.

Fyrirhuguð fjárfesting upp á kr. 60 milljónir á árinu 2024 skiptist á þrjá liði:
a) Móatún, endurnýjun götu sem og lagna bæði í vatnsveitu og fráveitu: Kr. 50.000.000.
b) Bætt aðstaða slökkviliðs með því að tilfærslu starfsstöðva í húsi sveitarfélagsins að Strandgötu 48:
kr. 5.000.000.
c) Ýmis smærri verkefni Kr. 5.000.000.

Vegna sameiningar sveitarfélagsins við Vesturbyggð, sem hefur verið samþykkt, var fjárhagsáætlunin lögð fyrir sveitarstjórn Vesturbyggðar, sem samþykkti hana á þriðjudaginn.

DEILA