Bolungavík: Baldur Smári hættir í bæjarstjórn

Baldur Smári Einarsson.

Baldur Smári Einarsson, bæjarfulltrúi D lista í Bolungavík hefur óskað eftir lausn frá störfum og samþykkti bæjarstjórnin erindi hans á þriðjudaginn með öllum greiddum atkvæðum. Baldur Smári sat sinn fyrsta bæjarstjórnarfund fyrir 20 árum sem varamaður. Þremur árum síðar var hann kjörinn bæjarfulltrúi og hefur því setið í bæjarstjórn samfleytt í rúmlega 17 ár.

Ástæða breytinganna er sú að um áramótin tekur Baldur Smári við starfi fjármálastjóra hjá Arctic Fish segir hann að vegna þess geti hann ekki lengur sinnt störfum í bæjarstjórn af þeim krafti sem hann telur vera nauðsynlegt.

Á þessum tímamótum segir Baldur Smári Einarsson: „Á þessu tímabili er efst í huga mér tilkoma Bolungarvíkurganga sem færði samfélagið okkar í öruggt vegasamband við nágrannabyggðirnar. Þegar íbúatölur er skoðaðar má einnig sjá að það hefur verið stöðug fólksfjölgun í Bolungarvík frá því að göngin voru tekin í notkun. Atvinnulífið í bænum hefur einnig verið í mikilli sókn undanfarin ár, en í mínum huga er sterkt atvinnulíf grundvöllur þess að byggðarlög geti vaxið og dafnað. Einnig er rétt að minna á að íbúabyggðin í Bolungarvík hefur á þessum tíma verið varin fyrir náttúruvá með byggingu snjóflóðavarnargaða í hlíðum Traðarhyrnu. Slíkar framkvæmdir tryggja öryggi byggðar í bæjarfélaginu.“

Um horfurnar framundan er Baldur Smári bjart´synn:

„Í dag er staða Bolungarvíkur sterk, atvinnulífið er öflugt og það ríkir bjartsýni meðal íbúanna. Á sama tíma og nýr og öflugur atvinnuvegur hefur starfsemi í sveitarfélaginu er búið að klára skipulag á nýju hverfi við Hreggnasa þar sem mun byggjast upp vel staðsett íbúabyggð. Framtíð Bolungarvíkur er sannarlega björt, það er uppgangur í atvinnulífinu, tækifærin liggja víða og íbúarnir hafa væntingar um vöxt í samfélaginu.“

DEILA