NASF: frv um lagareldi gengur of skammt til að vernda villta laxastofninn

Elfar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri NASF.

Verndarsjóður villtra laxastofna (North Atlantic Salmon Fund (NASF)) segir í fréttatilkynningu að frumvarp til laga um lagareldi, sem er í samráðsgátt stjórnvalda, gangi of skammt til að vernda villta laxastofninn.

Sjóðurinn er á því að banna eigi sjókvíaeldi vegna umhverfisáhrifa og fenginnar reynslu, en á meðan það er leyft þurfa að gilda um það ströng lög. Frumvarpið sem nú er kynnt er að sumu leyti framför frá síðustu lagasetningu, en þó er langt í land ef stjórnvöld ætla sér að vernda villtan lax og lífríki. Torvelt sé að sjá að mörg atriði innan frumvarpsins séu gagnleg fyrir villta laxastofninn og náttúruna.

Þá segir í fréttatilkynningunni:

„Strax mátti sjá á Alþingi að þingmenn vildu gefa alræmdum fyrirtækjum afslátt, enda virðast fæstir reikna með að fyrirtækin geti starfað innan ramma núverandi laga, hvað þá hertra laga. Þetta kemur fram í nefndaráliti frá þingmönnum meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sem allir eru í ríkisstjórnarflokkunum. Þar virðist ekki vilji til þess að iðnaðurinn greiði gjald fyrir þann skaða sem hann veldur náttúrunni.“

Vill sjóðurinn að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu, m.a. að gera kröfu um að afföll seiði í eldi verði minni en þau 10-20% sem frv gerir ráð fyrir , lagst er gegn innra eftirliti fyrirtækjanna, að áhættumat erfðablöndunar frá Hafrannsóknarstofnun verði áfram bindandi og lagst er gegn því að að leyfi verði ótímabundin, veðsetjanleg og framseljanleg. „Þetta minnir óþarflega mikið á kvótakerfið og þættina „Verbúðin“.“

DEILA